Eftirleit Ólafs 1917

Frásögn Ólafs Jónssonar birt í Gnúpverjanum 1951
Haustið 1917 var fjallferðinni og réttunum seinkað um eina viku, eins og eldri menn minnast. Eftirleitin var og farin í síðara lagi þetta haust. Eftirleit þessi varð þeim, sem í hana fóru, mjög eftirminnileg, því hún varð ein af þeim vestu og erfiðustu, sem farin heru verið hér á afréttinn, í minnum núlifandi manna. Og aldrei, svo vitað sé, hefur leitamaður á Gnúpverjaafrétti legið úti nama þá.
Í þessa eftirleit fóru þessir menn: Eiríkur Kolbeinsson frá Stóru-Mástungu, þá bóndi í Saurum í Flóa, Þórarinn Jónsson frá Stóra-Núpi og Ólafur Jónsson Eystra-Geldingaholti. Þeir Eiríkur og Þórarinn eru báðir látnir fyrir löngu og því Ólafur einn til frásagnar um þessa för. Ritnefnd Gnúpverjans hefur beðið hann að segja lesendum blaðsins frá ferð þessari og fer frásögn hans hér á eftir.
Við lögðum af stað í eftirleitina um Veturnóttaskilarétt. Var þá sæmilega gott veður, hæg útsinningsél. Fyrsta dagleiðin var inn í Gjá og þar vorum við fyrstu nóttina. En er við fórum að gæta að hestunum morguninn eftir, brá okkur í brún, því nokkuð af þeim vantaði. Er skammt af því að segja að viðurðum að elta þá alla leið fram í Hallslaut. Var það heldur ónotalegur snúningur. Kl. mun því hafa verið orðin víst 10 um morguninn er við lögðum af stað úr Gjánni. Veðri var þannig háttað þennan morgun, að í útsuðri var mjög ljótur bakki, sem gekk ört upp. Héldum við nú af stað inn veg, og inn að Rauðá. Þar skildum við. Þeir Eiríkur og Þórarinn fóru vestur í Fossheiði, en ég inn veg með trússarann, en þá var aðeins einn trússhestur hafður í eftirleit. Ég fór einnig með hest Eiríks, því hann fór gangandi þennan dag. Þórarinn fór ríðandi og átti hann að fara vestur að Fossá og inn fyrir Lambafell. En Eiríkur fór inn Fossheiði að austan. Gekk mér ferðin vel til að byrja með. Er ég var komin eitthvað upp með Innri-Skúmstungnaá gerði él. Var það bæði langt og mjög dimmt, svo varla sást milli varða. Mun ég hafa verið kominn eitthvað inn í Starkaðsver er birti upp. Skömmu síðar gerði annað él, engu minna en hið fyrra. En er ég var kominn inn undir Gljúfraá birti upp og gerði logn. Jörð var nú öll alhvít og tekið að bregða birtu. Og eftir skamma stund sá ekkert nema hvítu yfir allt og svo stjörnur á himni. Var því mjög erfitt að rata, því allt virtist slétt og örðugt að átta si á kennileitum. Var þá enginn kofi í Gljúfurleit, nema gamli litli kofinn við Geldingaá. Þangað varð ég því að komast. Er skammt af að segja að ég komst í kofan kl. 8 um kvöldið. En sjö sinnum varð ég að bera af frá Jóhannsgili að kofanum. Var það erfitt ferðalag og bæði ég og hestarnir orðnir þreyttir, því hin mestu umbrot voru í öllum giljum. Gekk ég nú frá hestunum og fór síðan að hita kaffi og fá mér matarbita. Á hverrri stundu vonaðist ég eftir félögum mínum. Og svo leið kvöldið til kl. 11. Þá kom Eiríkur einn

Horft niður að kofanum á Tranti við Geldingaá, mynd tekin 2006


Þá er að taka til að segja frá, þar sem áður var frá horfið, er é skildi við félaga mína við Rauðá. Héldu þeir saman vestur í Fossheiði, en skildu þar, og fór Þórarinn, eins og áður er sagt, inn með Fossá, en Eiríkur inn heiði að austan og höfðu þeir gert ráð fyrir að hittst í Öræfaklauf. En í fyrra élinu, því er ég fékk við Skúmstungnaá, villtist Þórarinn og taldi hafa komist út yfir Fossá. En er upp birti áttaði hann sig og hélt austurúr og hitti Eiríkur hann. En síðar skildu þeir aftur og skyldi Þórarinn fara inn fyrir Lambafell. Eftir það hittust þeir ekki. En af Eiríki er það að segja að er hann kom í Öræfaklaufina, var Þórarinn ekki þar kominn. Mun hann hafa beðið þar eitthvað, en hélt síðan áfram, austur í Gljúfurleit. Komst hann að Gljúfraá, en er þangað kom treysti hann sér ekki til að rata beint í kofann, því þá sá hann ekkert orðið nema eina hvítu yfir allt. Tók hann þá það ráð að fara niður með Gljúfrará og síðan inn með Þjórsá. Þeir sem þarna eru kunnugir, geta gert sér í hugarlund, þvílík glæfraför það hefur verið, enda hrapaði hann tvisvar eða þrisvar, en sakaði þó ekki.
Leið svo nóttin að ekki kom Þórarinn. Ekki varð okkur svefnsamt, því áhyggjur höfðum við af honum. Þó veður væri allgott, var ekki að vita hvað fyrir hann hefði komið, eða hvar hann var niður kominn. Með birtu næsta morgun lögðum við af stað að leita hans. En er við höfðum skammt farið, komum við á för hans. Höfðum við farið á mis sitt hvoru megin við hæð, og varð hann á undan okkur í kofann. Varð nú heldur en ekki fagnaðarfundur, er við höfðum heimt Þórarinn, heilan og hressan.
En frá honum er það að segja að hann taldi sig hafa komist í Öræfaklauf um kvöldið en síðan vissi hann ekkert hvað hann fór, því að með öllu var ómögulegt að rata. Tók hann því það viturlega ráð að setjast að og halda kyrru fyrir um nóttina. Ekki vissi hann upp á víst hvar hann hafði verið um nóttina, en einhversstaðar vestan við Hnappöldu, og mun þvi aldrei hafa farið neitt að ráði afvega. Þessi ráðabreytni Þórarins að halda kyrru fyrir er hann vissi ekki lengur hvað hann fór, mætti verða öðrum til eftir breytni, er svipað væri ástatt fyrir.
Þessa nótt var veður gott, logn en töluvert frost og úrkomulaust. Þess skal hér getið að er við lögðum af stað úr Gjánni, hafði ég orð á því við Eirík, en hann var sá eini okkar, sem var vanur eftirleitarmaður, hvort ekki væri vani að hafa með sér matarbita í leit í slíkum ferðum. Ekki kvað hann það venju, en þetta varð til þess að Þórarinn tók með sér, þennan dag, bita og heytuggu í poka. Var það honum mikil bót og leið honum betur um nóttina fyrir það.
Hröðuðum við okkur nú sem við gátum að komast af stað, en þennan dag ætluðum við í Kjálkaver. Er við komumst á móts við Kóngsás, gerði vont él, og úr því var vondur útsynningur sem eftir var dagsins. Er að Dalsá kom var hún öll uppbólgin og ekki árennileg yfirferðar. Þó gekk okkkur sæmilega yfir. Miklilækur var einnig allur uppbelgdur og ekki minni en á miðjar síður milli skara. Yfir hann komumst við þó eftir nokkurt slark. Er við komum í Kjálkaverskofa um kvöldið var orðið aldimmt, því færð var víða vond og ferðin sóttist því heldur hægt.
Um nóttina snérist vindur í hvassa norðanátt og um moruninn var mikill skafrenningur svo ekki var viðlit að leggja af stað. En þennan dag áttum við að fara inn á Bólstað, og því yfir Fjórðungssand að fara. En um hádegi var veður heldur farið að batna, svo við lögðum upp. En vondt og hvass fengum við inn sandinn. Er að Hnífá kom, lyngdi og var besta veður fram eftir kvöldinu. Þennan dag fundum við 12 lömb, sex í Hnífárveri og önnur sex í Tjarnarveri. Þessi dagur þótti okkur því takast vel. Þetta kvöld var hvergi vatn að hafa á Bólstað, og urðum við því að bræða snjó og klaka til þess að geta hitað kaffi. Alla þessa nótt var norðan stórhríð, og um moruninn var slétt fram af kofanum, og ætlaði okkur að ganga illa að komst út. Nú var veður orðið sæmilegt og héldum við af stað. Færð hafði versnað og voru víða umbrot. Þeir Eiríkur og Þórarinn fóru inn í Oddkelsver og Jökulkrika en ég fór áleiðis framúr með féð og trússarann. Á Króknum fann ég 7 kindur. Hélt ég síðan fram með Þjórsá. Er ég kom nokkuð fram á sandinn, fór að gera vond útsynningsél og hélst svo, það sem eftir var dagsins. Fyldi ég Þjórsá, þar til ég taldi mér óhætt að fara að halla mér vestur, til að komast í Kjálkaverskofann. Fann ég þarna tvö lömb og var ég þá kominn með 21 kind. Var nú tekið að dimma og hálf vont að rata. Þó tókst mé að ná að Kisu á móts við kofann. Og um leið og ég kom þar, sá ég hvar hinir koma að ánni að vestan. Heyri ég þá að Eiríkur segir: „Guði sé lof að hann er kominn”. Munu þeir hafa verið hræddir að mér hefði engið illa með féð á móti veðrinu, eða jafnvel lent í vandræðum. Rákum vi ðnú féð vestur yfir Kisu og héldum síðan í kofann. En um það leyti sem við náðum kofanum, brast á skyndilega slíkt aftakaveður af norðri, að slíkt hafði ég ekki áður vitað. Best get ég lýst þessu veðri með því að vitna í lýsingu Ólafs á Skriðufelli í „Göngur og réttir” er hann var þarna í eftirleit 1894, ásamt Gísla Einarssyni. Svo skyndilega brast veðrið á og svo afskaplegt var það, að hver hefði orðið að vera þar sem hann var staddur.
Alla næstu nótt var norðan stórhríð og til hádegis daginn eftir. Þá slotaði veðrinu og lögðum við af stað. Voru nú komnar óhemju miklar snjódyngjur, slétt yfir öll gil og lægðir. Fór ég upp í Miklulækjarbotna og síðan fram í Norðurleit, vestur í Öræfatungu og svo niður með Dalsá. Hinir fóru framúr að neðanverðu og fundu 1 lamb til viðbótar í Loðnaveri. Í Öræfatungunni fann ég 3 lömb. Var ég lengi niður með Dalsá, því þar var færðin svo vond víða, að nær ófært mátti kalla og oft missti ég hestana alveg á bólakaf. Þeir urðu því að bíða alllegni eftir mér við Dalsá. Og er við hittumst þar var farið að bregða birtu.
Við höfðum hálft í hvoru hugsað okkur að vera í Dalsárkofanum um nóttina. En er að honum kom var ekki álitlegt að komst þar inn, því kominn var skafl af kofamæni og alla leið fram yfir Dalsá. Þeir sem þarna eru kunnugir, geta af þessu séð, þvílíkar feikna snjódyngjur komnar voru. Tókum við því það ráð að halda áfam fram í Gljúfurleit um kvöldið. Komumst við með fé fram að Niðuröngugili og skildum það þar eftir. En í kofann komumst við kl. 12. um kvöldið. Vorum við þá búnir að vera 12 tíma að brjótast áfram í þessari botnlausu ófærð, svo að segja stanslaust, og orðnir fegnir hvíldinni.
Morguninn eftri sóttum við féð. Var þá sæmilegt veður, en mjög mikið frost. Þennan dag fórum við fram í Skógakofa og fundum nokkrar kindur til viðbótar. Um kvöldið og nóttina snjóaði töluvert. Næsta dag fórum við svo fram að Skriðufelli í versta veðri. En 39 kindur höfðum við fundið í ferðinni og með þær allar komum við til byggða.
Þá bjó á Skriðufelli Ólafur Bergsson. Var hann feginn komu okkar og taldi okkur úr helju heimta. Og er hann hafði boðið okkur velkomna spyr hann: „Eruð þið með nokkra kind”. Hann mun hafa fylgst vel með ferðum okkar í huganum, og af eigin reynslu vitaðað að í slíkum veðrum, sem við höfðum fengið má ekki alltaf miklu muna hvort vel eða illa tekst til. Það þarf ekki að taka það fram að á Skriðufelli var okkur afbragðs vel tekið og þar áttum við góða nótt.
Í þessari eftirleit vorum við að vísu ekki lengur en er venja hér, þó gott sé. En við fengum byl á hverjum degi, meira eða minna, tvær nætur var norðan stórhríð, einn okkar lá úti, heila dimma og kalda skammdegisnótt, færð fádæma vond og fór alltaf versnandi og við komum til byggða með 39 kindur og björuðum þar með 39 lífum frá því að kveljast og falla á öræfum uppi. Allt þetta er ef til vill þess vert að það sé geymt en ekki gleymt. Því er þessi frásögn birt hér.